Veiðimolar

Pistlar og tilkynningar

Heimilisdýrum fjölgar í Veiðisafninu á Stokkseyri

Heimilisdýrum í Veiðisafninu - Stokkseyri hefur fjölgað, um er að ræða sendingu uppstoppaðra dýra frá Suður Africu alls átta talsins sem voru veidd árið 2016 Leirbukkur - Nyala antilópa í heilu lagi ásamt Impala antilópum, Vörtusvín,Skrúfhyrna – Kudu og Gnýr – Blue Wildebeest ásamt framparti af Zebrahesti sem er frístandandi á gólfi hafa nú verið uppsett í sýningarsölum Veiðisafnsins.

Margir safngestir Veiðisafnsins hafa beðið eftir þessari sendingu því von hefur verið á þessum dýrum um nokkurn tíma og er það okkur sönn ánægja að tilkynna að dýrin eru komin í hús. Einnig hafa verið settar inn 300 nýjar ljósmyndir í myndamöppur safnsins sem hafa notið mikilla vinsælda gesta. Börn eru vel meðvituð í dag um dýraríkið og þau hafa gaman af því að skoða dýrin hér í Veiðisafninu í návígi, sem margir lýsa sem einstakri upplifun.


Munir frá Sigurfinni Jónssyni á Veiðisafninu

Hinn landskunni veiðimaður Sigurfinnur Jónsson frá Sauðárkróki hefur ánafnað Veiðisafninu á Stokkseyri persónulega muni ásamt Beretta haglabyssu sem hann notaði til veiða í fjölda mörg ár.

Er hér um höfðinglega gjöf að ræða en þessir munir hafa verið hér í sýningu á Veiðisafninu um nokkurn tíma. Vart þarf að kynna Sigurfinn veiðimann enda löngu landsþekktur af sýnum veiðum og má nefna að hann hefur gengið til rjúpna í 70 ár og haldið veiðibækur alla sína tíð.

Gjöf Sigurfinns inniheldur m.a. ljósmyndir, dagbók, skotapakka og skinn af forláta villisvíni sem hann veiddi í Póllandi ásamt hleðslutækjum auk Beretta haglabyssu, tvíhleypa af bestu gerð ásamt eintaki af bókinni Háspenna lífshætta sem um hann var rituð fyrir nokkrum árum sem Árni Gunnarsson skráði.

Stjórn Veiðisafnsins þakkar Sigurfinni fyrir þessa höfðinglegu gjöf og eru munirnir nú til sýnis í öðrum af sýningarsölum safnsins.

Sigurfinnur Jónsson veiðimaður og Páll Reynisson veiðimaður- og safnstjóri Veiðisafnsins


DRÍFURNAR ERU KOMNAR Í HÚS

Drífa haglabyssa nr.166 er fundin en hún var sú síðasta sem vantaði á eigendaskrá Drífuvinafélgsins en það er félagsskapur sem heldur utanum haglabyssur Jóns Björnssonar byssusmiðs með meiru frá Dalvík en hann lést 1991.

Var það sonarsonur Jóns, Jón Björn Bragason sem fann síðustu byssuna eftir samtal við eiganda hennar, Eyþór Bollason en þeir hittust í fjölskylduboði nýlega og tóku spjall saman um smíðar Jóns Björnssonar.

Hefur leit að haglabyssunum staðið yfir í mörg ár og vill Veiðisafnið og Drífuvinafélagi þakka öllum er að málinu hafa komið en verkefnið var stutt af Þjóðhátíðarsjóði á sýnum tíma.

Alls smíðaði Jón Björnsson 120 haglabyssur með boltalás sem eru einstakir safngripir, en Jón nefndi byssurna Drífur vegna þess hvað þær drifu og fóru vel með.


Ný uppstoppuð dýr á Veiðisafninu

Veiðisafnið - Stokkseyri - 26.07.2010

Tveir Vísundar – Amerískur Buffalo (Bos Bison) sem voru veiddir í Minnesota – USA hafa verið settir upp til sýningar í Veiðisafninu Stokkseyri, er hér um framparta að ræða. Dýrin voru 950kg. og 1.100kg. að þyngd, fullorðnir tarfar báðir tveir og vekur stærð þeirra mikla eftirtekt.

Dýrin voru felld með skammbyssu, T/C Contender cal.45-70 kúluþyngd 400gr og eru uppstoppaðir af Ted Pilgrim Taxidermy – Menahga MN. - USA

Veiðimenn eru Jónas Geir Sigurðsson og Páll Reynisson - Veiðisafnið

Jónar Transport hf. - Reykjavík og Bíltak ehf. - Selfossi fá bestu þakkir fyrir stuðninginn við innflutning dýranna til Íslands.

Um 1880 er ljóst að Vísundar í Norður Ameriku eru að verða útdauðir vegna ofveiði, en á þeim tíma voru bara einstaka hjarðir í einkaeign til og lítil villt hjörð í Yellowstone þjóðgarðinum. Í Maí 1894 eru sett lög af stjórnvöldum í Norður Ameriku til að friða þessar stóru skepnur og eftir það hefur ræktun þessara dýra gengið vel, en um 1931 er áætlað að hafi verið til nálægt 21.000 vísundar í Norður Ameríku og hefur þeim fjölgað mikið síðan.


Hvítabjörn á Veiðisafninu

Veiðisafnið á Stokkseyri hefur eignast hvítabjörn, uppstoppaðan í fullri stærð og hefur hann verið settur upp til sýningar í sýningarsal safnsins.

Hér er um að ræða grænlenskan hvítabjörn sem settur var upp af Sigurði Guðmundssyni hamskera á Akureyri en hann naut aðstoðar kennara sinna frá Svíþjóð og Danmörku við uppsetninguna. Er björninn einstaklega vel upp settur og glæsilegur, standandi á þremur fótum. Ekki er um endanlega uppstillingu að ræða þar sem hugmyndin er að setja hann upp með tveimur hvítum íslenskum refum á sérstakan sýningarpall þar sem hægt verður að skoða hann frá öllum hliðum og er ætlunin að setja þetta upp í nýjan sýningarsal safnsins sem nú er í smíðum í viðbyggingu við safnið.

Sýningargestir Veiðisafnsins hafa strax frá opnun safnsins í maí 2004 spurt mikið um hvítabjörn og hefur varla liðið sú vika á þessum tíma að ekki hafi verið um hann spurt og er það okkur sönn ánægja að geta boðið sýningargestum upp á þessa viðbót í safnakosti. Rétt er til gamans að geta þess að þetta er líklega eini hvítabjörninn sem vitað er um sem hefur farið í gegnum Hvalfjarðargöngin, er hann var sóttur til Akureyrar.

Veiðisafnið er opið daglega frá kl.11 til 18


Átt þú íslenska haglabyssu?

Veiðisafnið á Stokkseyri í samvinnu við afkomendur Jóns Björnssonar frá Dalvík stofnuðu Drífuvinafélagið 12.mars 2005 en Jón heitinn smíðaði 120 haglabyssur sem allar eru listasmíði og einstakar í sögu þessa lands, ekki bara sem skotvopn heldur líka sem smíðisgripir og þar með partur af íslenskri iðnsögu.

Jón kallaði þessar byssur Drífur og segir nafnið þó nokkuð um gæðin og þóttu þær góðar til veiða. Með stofnun Drífuvinafélagsins er líklegt að flestar þær byssur sem þá voru í notkun hafi fengið annað gildi hjá eigendum sínum og teljast í dag líklega án undartekninga safngripir, en mikil vinna var lögð í það af hálfu Veiðisafnsins og afkomenda Jóns Björnssonar að hafa upp á þessum byssum og gera eigendalista og er hann birtu hér á heimasíðu Veiðisafnsins en þar má einnig finna ítarlegri upplýsingar um Jón Björnsson og Drífurnar en Jón heitinn byrjaði á að merkja fyrstu byssuna nr. 101 og er síðasta byssan sem hann smíðaði nr. 220.

Nánast allir Drífueigendur sem haft var samband við tóku vel í gerð eigendalistans þegar félagið var stofnað og ber að þakka það en þó vantar okkur sex byssur af þessum 120 sem Jón smíðaði og auglýsum við hér með eftir Drífum #142 #166 #167 #171. 

Allar þessar Drífur eru einsskota með boltalás og löngu 36î hlaupi, merktar á þeirri hlið er snýr á móti bolta, JB Drífa Dalvík og eintaksnúmeri.

Líklegt er að þessar umræddu haglabyssur séu í dánarbúum og/eða í geymslu hjá aðilum sem ekki þekkja til þeirra né Drífuvinafélagsins og er það ósk okkar sem að þessu standa að viðkomandi gefi sig fram svo skrá megi byssurnar með hinum.

Þessi haglabyssusmíði Jóns Björnsonar frá Dalvík er einstök á landsvísu og með ólíkindum að einn og sami maðurinn hafi handsmíðað 120 haglabyssur sem allar eru listasmíði og ber okkur sem á eftir honum koma skylda til að halda nafni hans og smíðum á lofti til komandi kynslóða.

Allar nánari upplýsingar og skráningu annast Veiðisafnið sími 483-1558